Valkvæður agi

http://kjarninn.is/valkvaedur-agi

"Komið hefur í ljós að ríkisstofnanir hafa farið sjö milljarða króna fram úr skömmtuðum fjárheimildum á fyrstu sex mánuðum ársins 2014. Það er mikilvægt og göfugt markmið að halda stofnunum ríkisbáknsins innan þess ramma sem þeim er sniðinn. Slíkt vinnur gegn þjóðarsjúkdómnum verðbólgu og er þess utan auðvitað góð stjórnsýsla. Tilgangurinn er enda sá að við eyðum minna en við öflum og getum þar af leiðandi nýtt viðbótarfé til nauðsynlegra niðurgreiðslna á allt of háum skuldum eða annarra góðra verka.
Það er því eðlilegt að forstöðumenn þeirra stofnana sem hafa farið fram úr fjárheimildum séu kallaðir fyrir fjárlaganefnd og látnir útskýra framúrkeyrsluna. Það er hins vegar í besta falli hjákátlegt, og í versta falli algjörlega súrreal­ískt, að heyra stóryrta stjórnarþingmenn tala digurbarkalega um það í samhengi við framúrkeyrsluna að það verði að ríkja agi í ríkismálum til að bæta lífskjör. Framúrkeyrslan standi í vegi fyrir þeim bættu lífskjörum og hún verði ekki liðin lengur. Sætti forstöðumenn stofnana sig ekki við það geti þeir fundið sér eitthvað annað að gera.

Snjómokstur, sjúklingar og barnatannlækningar

Nú hafa flestir forstöðumenn þeirra stofnana sem fóru fram úr fjárheimildum þegar boðið upp á skýringar á því í fjölmiðlum. Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, sagði að álag hefði aukist og dreifð starfsemi spítalans í, að sumu leyti, ónýtu húsnæði skapað gífurlegt óhagræði sem væri til komið vegna þess að ekki hefði enn verið ráðist í byggingu nýs Landspítala.
Vegagerðin útskýrði að hennar framúrkeyrsla hefði aðallega verið vegna þess að snjómokstur hefði verið miklu meiri en áætlanir hefðu gert ráð fyrir. Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga ríkisins, sagði að framúrkeyrsla hans stofnunar hefði aðallega verið vegna þess að hún hefði þurft að borga meira út vegna læknis­kostnaðar og lyfja. Sú kostnaðar­aukning er meðal annars tilkomin vegna samninga sem gerðir voru við sérfræðilækna og samnings sem gerður var við tannlækna um barnatannlækningar. Embætti sérstaks saksóknara fór líka fram úr heimildum.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur reyndar sagt að embættið sé innan þeirra heimilda sem því hafi verið sniðnar árið 2010. Ástæða framúrkeyrslu nú sé sú að enn sé verið að rannsaka mál sem embættið var stofnað með lögum til að rannsaka.
Séu þessar skýringar réttar, sem er í raun engin ástæða til að rengja, hefði Landspítalinn átt að vísa veiku fólki frá frekar en að fara fram úr fjárheimildum. Vegagerðin hefði ekki átt að moka snjó af stofnæðum eða þjóðvegum þegar ofan­koman ógnaði daglegu gangverki og öryggi sam­félagsins. Sjúkratryggingar hefðu einfaldlega átt að neita að borga fyrir barnatannlækningar eða heimsóknir fólks til sérfræðinga þar sem peningurinn var búinn. Og Sérstakur saksóknari hefði átt að hætta að rannsaka eða saksækja valin mál. Ýmsir þingmenn væru örugglega til í að hjálpa ­embættinu að velja hvaða mál yrðu fyrir valinu.

Tugmilljarða peningagjafir ekki agaleysi?

Sömu stjórnarþingmennirnir og telja þessa sjö milljarða króna framúrkeyrslu vegna móttöku sjúklinga, snjómoksturs, barnatannlækninga, sérfræðilæknaþjónustu og rannsókna á stærsta hlutfallslega efnahagshruni sem þjóð hefur gengið í gegnum hafa á síðastliðnu rúmu ári ekki alltaf verið jafn varkárir með ríkisbudduna. Þeir settu það ekkert sérstaklega fyrir sig að ausa 72 milljörðum króna úr ríkissjóði í mestu millifærslu frá öllum til sumra í skuldaniðurfellingaraðgerðunum sem ráðist var í til að borga fyrir veru Framsóknarflokksins í ríkisstjórn.
Þeir hafa heldur ekkert verið að öskra sig hása í fréttatímum landsins yfir því að þessi fóðrun á einkaneyslu er ein ástæðna þess að vöruskiptajöfnuður þjóðarinnar er neikvæður um 10 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2014, eftir að hafa verið jákvæður um 25 milljarða króna á sama tíma fyrir ári. Þeir eru ekkert að pæla í því að ekki sé verið að búa til gjaldeyri í hagkerfinu til að geta borgað erlendar skuldir eða jafnvel létt á höftum. Það er víst ekki agaleysi að sóa peningum þegar þeir eru sjálfir í hluti gerenda.

Þeir fóru ekkert sérstaklega af réttlætishjörunum þegar tilkynnt var í fjárlagafrumvarpinu að auka ætti tekjur með hærri skattlagningu með því að láta tryggingagjöld skila meiru, sem atvinnulífið borgar, hækka skatt á tekjur og hagnað, sem almenningur borgar, og bankaskatt á þrotabú fallinna banka, sem kröfuhafar þeirra borga. Þessar aðgerðir, ásamt bókhaldsfiffi með skilmála á skuldabréfi við Seðlabanka Íslands, skiluðu nægum tekjum til að hægt væri að lækka álögur á sjávarútveginn um 6,4 milljarða króna og afnema gistináttaskatt á þá milljón túrista sem koma hingað til lands, með tilheyrandi ágangi og kostnaði fyrir innviði okkar, sem átti að skila 1,5 milljörðum króna hið minnsta.

Agahræsni

Það hefur ekki ríkt agi í ríkisfjármálum undanfarið ár. Þvert á móti hefur ótrúlegur fjáraustur og tilfærsla á fjárhags­legum byrðum átt sér stað. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér. Það þýðir ekki að gefa völdum atvinnu­greinum nokkurra milljarða króna skattalækkun og nokkrum efri millistéttarheimilum nokkra tugi milljarða króna í skuldaniðurfellingu með hægri hendinni en truflast yfir óráðsíðu þegar lykilstofnanir í velferðarkerfinu fara fram úr heimildum vegna þess að forstöðumenn þeirra vilja ekki synja fólki um grunnþjónustu.
Aginn í ríkisfjármálunum má ekki vera valkvæður með þeim hætti að á honum megi slaka, verulega, þegar stjórnmálamenn eru að borga fyrir setu sína á þingi með glórulausum skammtímaákvörðunum en að á honum eigi að herða fast þegar kemur að helstu innviðum velferðarkerfisins.
Slíkt kallast hræsni."

 

Þessi ríkisstjórn þarf að fara frá.

Mín tillaga er XD og XS. Inn í ESB með skattalækkunum og niðurgreiðslu ríkisskulda.

kv

Sleggjan

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott yfirlit.
Vandamálið er að ríkisstjórnir og kjósendur þora ekki að forgangsraða og ætla öðrum að gera það og koma með flatan niðurskurð.

Moka hluta undir teppið og eru með bókhaldsfiff til að smyrja þetta saman.
Það er stundum litlu málin að ganga undan með góðu fordæmi sem skipta máli.

Fjölgun ráðuneyta, ráðherra, aðstoðarmanna (spinn doctors) sem eru orðnir 2 á hvern ráðherra. Það að formaður fjárveitingarnefndar lætur endurnýja skrifstofuna sína með nýjum og dýrum húsgögnum eru í raun smámál en setur ákveðið fordæmi fyrir aðra.
Ég hef alltaf undrast að það séu mörg sveitarfélög með sitt stjórnkerfi í kringum Reykjavík sem er í raun eitt búsetu og atvinnusvæði.  Það er engin sameiginleg stefna hvað varðar samgöngur, uppbyggingu.  Álftanes/Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Reykjavík ætti að slá saman. Marföld stjórnkerfi með bæjarstjóra/borgarstjóra, embættismannakerfi og stjórnkerfi skóla, heilbrigðiskerfis væri hér hægt að slá saman og mun þá sparast gríðarlega mikill stjórnunarkosnaður sem væri td. hægt að nota með að lækka álögur, bæta samgöngur og þjónustu.
Bull að vera með velborgaða bæjarstjóra í örsmáum byggðum með innan við 4-5 þúsund íbúa er ein tillaga og á sveitarstjórnarstigingu er gríðarlegt fitulag en það verður öskrað og æpt og þarf að stíga á ótal tær.

Gunnr (IP-tala skráð) 19.8.2014 kl. 10:18

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Hér á að leggja fram frumvarp um skatta. 20%VSK, 15% tekjuskattur og 10% fjármagstekjuskattur.

Svo á að sníða ríkisreksturinn í samræmi við þessar tekjur.

hvells

Sleggjan og Hvellurinn, 19.8.2014 kl. 11:18

3 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Rétt Gunnr

Þurfum að sameina sveitafélag.

Getum til dæmis byrjað að sameina allt höfuðborgarsvæðið í eitt sveitafélag (Reykjavík) í hagræðingarskyni. Spara milljarða sem hægt er að lækka útsvar til samræmis.

Hvaða íbúi vill ekki hafa meiri peninga til handanna? Já, býst ekki við miklum mótmælum.

kv

Sleggjan

Sleggjan og Hvellurinn, 19.8.2014 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband