Þau sjónarmið sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, talaði fyrir á haustfundi Landsvirkjunar í gær eru dapurleg. Hún þrýsti fast á forstjóra Landsvirkjunar að selja orku til verkefna sem henni eru þókknanleg alveg óháð þeim arði sem þau verkefni myndu skila. Henni er til dæmis mikið í mun að Landsvirkjun selji orku til álvers í Helguvík (sem er í hennar kjördæmi) þótt nokkuð ljóst sé að slíkt álver geti ekki borið að kaupa orku á mikið meira en 40 Bandaríkjadali á Mwstundina á meðan allt bendir til þess að unnt sé að selja orku til Bretlands um sæstreng fyrir fjórum sinnum hærra verð. Fjórum sinnum hærra verð!!!
Ragnheiður Elín er því tilbúin að veita 75% afslátt af orkuauðlindum þjóðarinnar til þess að vinna atkvæði í heimbyggð. Ef hún nær sínu fram mun það kosta þjóðina hundruð milljarða (sem þýðir að það mun kosta hverja fjögurra manna fjölskyldu á landinu margar milljónir).
Ragnheiður segir að til hennar komi fjárfestar á hverjum degi sem hafa áhuga á því að kaupa orku. Er nema vona þegar menn vita að hún er tilbúin að veita 75% afslátt. Hvað heldur þú að gerðist, lesandi góður, ef þú auglýstir húsið þitt til sölu með 75% afslætti? Það mætti segja mér að þú fengið talsvert af tilboðum.
Segjum sem svo að olía finnist á Drekasvæðinu. Verður þá hugsunarháttúrinn sá sami? Álver á Íslandi keyrð áfram af olíu? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvar vitleysan mun enda. Ertu viss um að þú vitir það? Hvað með fiskinn? Það er líka hægt að bræða allan fisk sem veiðist við Ísland og nota sem eldsneyti í álver. Það er náttúrulega ómögulegt að vera að flytja fiskinn út. Eða hvað?
Ég hreinlega trúi því ekki að það sé skoðun þorra almennra Sjálfstæðismanna að skynsamlegt sé að þvinga Landsvirkjun til þess að selja orkuauðlindir þjóðarinnar á tombóluverði til þess að búa til stundarhagvöxt í héraði. Forysta flokksins virðist vera á villigötum í þessu máli. En ábyrgð flokksins verður mikil ef forystan nær sýnu fram. Ég hvet almenna flokksmenn til þess að láta heyra í sér. Viðskiptasjónarmið eiga að ráða því hverjum Landsvirkjun selur orkuna. Ekki geðþótti og sérhagsmunir ráðherra.
Tekið af bloggsíðu Jóns
Svona endar þetta þegar stjórnmálamenn hugsa einungis um sitt kjördæmi.
Svona er þetta þegar stjórnmálamenn hugsa bara um "fjölda starfa", en ekki heildarsamhengið. T.d. þessir hundruðir milljarðar á ári sem hægt er að fá meira í staðinn fyrir álverið, hversu mörg störf er hægt að skapa þar (ef það sé hennar markmið sem ég er ekki sammála reyndar) ? Allnokkur, Ragnheiður fattar það ekki.
kv
Slegg