Stolin Færsla

Ég er ekki vanur að copy paste-a færslur beint inn á bloggið. En nú er gott tilefni. Las svo svakalega skemmtilega færslu frá ritstjóra monitor.  Atli Fannar   http://blog.eyjan.is/atlifannar/

Hann skellti sér á hjólauppboð hjá löggunni. Ég var svona að spá í að fara og gera góð kaup. Ég á ekki hjól og væri til að taka hjólatúr í sumar. En einhvernveginn mætti ég ekki. 

En hér kemur færslan

 

 

Ég hef aldrei verið hrifinn af því að tala um að Íslendingar kunni ekki hitt og þetta. Sumir segja að við kunnum ekki að standa í röð á meðan öðrum finnst við ekki geta borðað mat á réttum hraða. Ég hlusta ekki á svona enda er fólk fífl um allan heim. Þegar ég verð vitni af einangruðum tilvikum, þar sem fólk sýnir hversu illa gefið það er, þá yfirfæri ég það ekki á þjóðina heldur manneskjuna.

Ég reyni að vera samkvæmur sjálfum mér og þurfti að passa mig á því að falla ekki í þjóðargagnrýnisrembugryfjuna um helgina. Ég fór nefnilega á reiðhjólauppboð lögreglunnar og slóst í hóp með 200 manns sem kunnu ekki að fara á uppboð.

Sagði ég þetta?

Þar til á laugardag taldi ég að fólk mætti á uppboð til að gera góðan díl, en þegar fyrsta ryðgaða skranið var slegið á 18.000 krónur fór ég að efast um eigin þekkingu á uppboðum (sem takmarkaðist reyndar við ofangreinda getgátu). Baráttan var ennþá harðari um næsta hjól - blátt fjallahjól, einnig ryðgað. Ekkert spes. Menn buðu eins og íslenskir auðmenn í gjaldþrota fyrirtæki hvers annars og hjólið var slegið á rúmar 20.000 krónur. Svona gekk þetta allan daginn, enda hafði fordæmið verið sett snemma.

Þetta var súrealísk upplifun. Viðstaddir buðu eins og óðir (auð)menn í notuð hjól þrátt, fyrir að skýrt hafði verið tekið fram að engin ábyrgð væri borin á ástandi þeirra. Þetta var eins og sjúkleg endurspeglun á hlutabréfakaupum í góðærinu. Fólk (ég meðtalinn) keypti hlutabréf án þess að vita sjitt um ástand fyrirtækjanna og það var ekki fyrr en álagið jókst að fyrirtækin ultu á hliðina. Það var því táknrænt að sjá  miðaldra mann hlamma sér á nýkeypt reiðhjól og loftlaus dekkin gefa eftir.

Þegar afturdekkjalaust fjallahjól var slegið á 25.000 kall fór ég. Ég ætla samt ekki að segja að Íslendingar kunni ekki að fara á uppboð. En þeir sem eyddu meira en 20.000 kalli í lögguhjól á laugardaginn þurfa kannski að fara á námskeið.

 

 

Kv

-Sleggjan-


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hawk

hahaha þetta er finndið

Hawk, 28.5.2009 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband