Sunnudagur, 1. febrúar 2009
Spennandi tímar í nánd
Nú þegar hin nýja ríkisstjórn hefur tekið við völdum í nánast öllum ráðuneytum fyllist Þruman af bjartsýni og von fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.
Kapítalisminn tók prófið og féll. Landinn átti nokkur góð ár fylltum af flatskjáum, glæsikerrum, utanlandsferðum og nýjum fasteignum. Gjaldið verður hinsvegar mörg mörg mögur ár fylltum af skuldum og verri lífskjörum. Íslendingar flýja ættjörð sína í tugatali og ástandið í dag minnir helst á ástandið í Evrópu á 18. öld þegar fólkyfirgaf föðurland sitt vegna fátæktar og kreppu og hóf nýtt líf í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi hér heima fyrir fer vaxandi og hefur náð methæðum. Þrátt fyrir það sjáum við ekki fyrir endann á uppsögnum. Öll fyrirtæki eru í hagræðingaferli og ástandið mun vissulega versna. Talið er að sjötta hvert fyrirtæki hér á Suðurnesjunum munu fara í gjaldþrot fyrir árslok. Vissulega ógnvænlegar spár. Nú er án efa tími fyrir samstöðu íslensku þjóðarinnar og hún verður að taka upp þau sósíalísku gildi sem byggjast á bræðralagi og samhjálp. Frumskógarlögmálið virkar ekki lengur í þessu nýja samfélagi.
Hin nýja ríkisstjórn vill byggja landið upp eins og forfeður okkar lögðu upp með árið 1944. Að halda í sjálfstæði okkar, baráttuvilja og halda uppi öflugu eftirlits- og umönnunarkerfi ríkisins. Í kreppu vilja margar ríkisstjórnir spara og spara en á þessum tímum er oft eina leiðin að eyða og eyða. Skapa störf fyrir landann til að halda hagkerfinu gangandi og minnka útgjöld í atvinnuleysisbætur. Opinber störf verða að aukast.
Skondið hefur verið að sjá fráfarandi flokk Sjálfstæðismanna reyna að koma sök sinni á fyrrverandi samstarfsflokk sinn. Vissulega eiga báðir flokkar hlut í máli auk Framsóknar en sá flokkur sem byggði undirstöðurnar fyrir hið óbeislaða viðskiptalíf er varð þjóðinni að falli er Sjálfstæðisflokkurinn. Þeir sýndu sinn velvilja til útrásarvíkinga. Settu engin höft á þá, losuðu sig við bankana, hunsuðu almennar siðareglur og aðvaranir og gáfu út bytlinga hægri, vinstri nánast í gjafaöskju til tryggra flokksmeðlima. Ef þú varst á móti þessari séríslenzku útrás varstu að aðhlátursefni. Góðærið skyldi sko aldrei enda taka líkt og í dag virðist sem kreppan muni aldrei enda taka. Nú síðast gaf hún Þorgerður Katrín út þá yfirlýsingu að ekkert merkilegt væri að sjá við hinn nýja stjórnarsáttmála Samfómanna og Græningja. Vissulega er margt í honum sem fráfarandi ríkisstjórn setti upp en reginmunurinn verður líklegast sá að nýja stjórnin mun virkilega láta verkin tala í stað fyrir að láta glundroða og skrifræði stöðva framrás enduruppbyggingar eins og sést venjulega á vinnuháttum Sjálfstæðismanna.
Ríkisstjórnin hefur ekki mikinn tíma til að taka til hendinni og þess vegna er án efa mikilvægast að leggja áherslu á mikilvægustu málin þ.e. að tryggja heimilum og fyrirtækjum landsins aðeins bjartari framtíð. Koma til móts við almenninginn.Þegar gengið verður næst til kosninga munum við samt vonandi sjá sömu ríkisstjórn fá umboð svo þau geti haldið sinni uppbyggingarstefnu áfram.
Í dag er ekki bara tími Jóhönnu Sigurðardóttur kominn heldur einnig tími hins venjulega íslenska vinnandi manns.
Tími breytinga, uppbyggingar og byltingar er loks runninn upp og nú er einna mikilvægast að sýna samstöðu svo við getum hafið Ísland upp til fornrar frægðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.