Fimmtudagur, 17. október 2013
Ísland Kúba norðursins?
Mikið var gert grín að Gylfa Magnússyni þegar hann hélt því fram að Ísland gæti orðið að einhverskonar Kúbu norðursins.
Sérstaklega af þeim sem vilja ekki í ESB og börðust gegn Icesave.
En nú færir vefritið Kjarninn rök fyrir að Ísland er komið langleiðina.....
http://kjarninn.is/island-er-kuba-nordursins
"Á sama tíma og einangrun og fjármagnshöft eru helstu varnir okkar þegar kemur að erfiðleikum á alþjóðamörkuðum eru þau einnig okkar helsti vandi. Það eru ekki spennandi tækifæri sem fylgja því að einangrast frá alþjóðamörkuðum, eins og er óhjákvæmilegur fylgifiskur strangra fjármagnshafta. Eitt það versta við þau er spillingin sem fylgir þeim, aukin stéttaskipting og mikil áhrif kunningjaveldisins. Innan hafta þrífst spilling, sem felst í aðstöðumuninum sem höftin skapa. Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands er ágætt dæmi um það. Með henni gefst Íslendingum í útlöndum tækifæri á því að kaupa sér betri aðstöðu en almenningi á Íslandi býðst. Þetta grefur undan samkeppni og ýtir undir stéttaskiptingu.
Í þessum aðstöðumun geta þeir einstaklingar blómstrað sem hafa byggt allt sitt á kunningjaveldinu, eru bestu vinir aðal. Slík staða er óþolandi og óholl öllum samfélögum, ekki síst þeim sem eru lítil. Þessi aðstöðumunur borgaranna felur ekki í sér jafnræði, en stjórnarskráin segir til um að ríkisvaldinu skuli beitt með jafnræði að leiðarljósi.
Smátt og smátt er Ísland að einangrast frá alþjóðamörkuðum vegna hafta og mikilla skulda þjóðarbúsins í erlendri mynt. Hagkerfið er ekki nægilega burðugt til að búa til gjaldeyristekjur sem duga fyrir skuldunum. Í það minnsta er það mat seðlabankans að miðað við óbreyttar forsendur muni Ísland lenda í alvarlegum vandræðum innan skamms tíma ef ekkert verður að gert. Það er ekki nema eitt og hálft ár í að óyfirstíganleg vandamál komi upp. Það mat hefur birst ítrekað í kjarnyrtum skrifum Seðlabankans í Fjármálastöðugleika og Peningamálum undanfarin tvö ár. Seðlabankinn verður ekki sakaður um að þegja um vandamálin í þetta skiptið, svo mikið er víst.
Stjórnmálamönnum ber skylda til þess að slíðra sverðin og horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Forsvarsmenn nýrrar ríkisstjórnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa ítrekað sagt að það verði að afnema fjármagnshöftin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Seðlabankinn hefur birt er það ekki hægt á grundvelli núverandi fyrirkomulags peningamála. Þvert á móti þarf að setja mikil höft á fjárfestingar til og frá landinu, einkum á fjárfestingar fagfjárfesta, til þess að kerfið sem notast er við gangi upp. Aðeins á þeim forsendum verði hægt að notast við krónuna áfram. Þetta þýðir í reynd að það stendur alls ekki til að afnema höftin. Það er tæknilega ómögulegt vegna þess hve staða Íslands er viðkvæm. Það sem Sigmundur Davíð og Bjarni segja ítrekað er því ekki rétt, miðað við þær upplýsingar sem birtar hafa verið opinberlega um stöðu mála.
Sigmundur Davíð og Bjarni ættu frekar að horfast í augu við að það er ekkert óeðlilegt að Ísland verði kallað Kúba norðursins í nánustu framtíð. Ekkert ríki á norðurslóðum býr við viðlíka haftabúskap og jafnvel þótt leyst verði úr þeim vanda sem snýr að erlendri krónueign hér á landi, með miklum ávinningi fyrir ríkissjóð, verður haftabúskapur áfram það sem íslenska hagkerfið þarf að laga sig að. Í þessum skilningi er Ísland Kúba norðursins og verður um ókomna tíð nema mörkuð verði ný stefna."
kv
Sleggjan
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alla vega gott veður á kúbu sól og strendur og góðir Havana vindlar og gott romm.
Klárlega er hinn efnahagslegi raunveruleiki bráðum að renna upp fyrir Íslendingum. Partíið er endanlega búið og síðan verður þetta 25 ára streð árið 2007 kemur ekki aftur. Við stefnum í þá átt sem var þegar Ísland var eitt fátækasta ríki Evrópu.
Aðalatvinnuvegurinn er sjávarútvegur, ferðamennska og nokkrar álbræðslur við verðum í sama flokki og Portugal og Grikkland.
Gunnr (IP-tala skráð) 17.10.2013 kl. 18:00
Við höfum auðlindir og mannvit.
Okkur vantar stöðugan gjaldmiðil og efnahagsumhverfi.
ESB sé ég að sé eini raunhæfi valkostur með öllum þeim kostum og göllum.
kv
sl
Sleggjan og Hvellurinn, 17.10.2013 kl. 19:05
Hvað Kúbu norðursins varðar þá er ekki eins og þið félagarnir hérna á síðunni dragið neitt af ykkur í baráttunni fyrir gjöreyðingu efnahagskerfisins. Mér skilst að hugmyndir ykkar snúi einkum að því að breyta skuldum í "ónýtum" gjaldmiðli yfir í skuldir í "alvöru" gjaldmiðli.
Væri nú ekki nær að nýta sér að landið er þó með eigin gjaldmiðil í þessari erfiðu stöðu og klára að bræða niður snjóhengjur og verðfella krónueignir erlendra kröfuhafa áður en framtíðargjaldmiðill fyrir landið verður fundinn?
En það sætir reyndar furðu að eftir Kýpur, Grikkland, Írland og svo framvegis, að það skuli ennþá vera hægt að selja fólki þá hugmynd að það sé hægt að bjarga slæmri efnahagsstjórn með því að taka upp Evru.
Benedikt Helgason, 17.10.2013 kl. 19:59
Jú, losun gjaldeyrishafta eru góð skref.
Þakka innlitið Benedikt
sl
Sleggjan og Hvellurinn, 17.10.2013 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.