Miðvikudagur, 19. júní 2013
Álver, Ólafur og spyr.is
Mikil umræða er nú á netinu um virkjanir og álver eða eitthvað annað. Spurningin er: Hvað er satt? Hvað vinna margir í álverum á Íslandi? Hvað skila álverin miklu til þjóðarbúsins, netto? Hvað kostar hvert starf í álveri og hvað kostar hvert starf í einhverju öðru?
Hver ákveður hvenær stóriðja er orðin að stóriðju,eða eftir hverju er farið til þess ákveða hvenær fyrirtæki er orðið að stóriðju..
Ólafur Teitur:
I.
Starfsmenn álveranna þriggja eru ríflega 1.500. Meðallaun þeirra eru tæpar 600 þúsund krónur á mánuði.
Auk þess vinna að jafnaði yfir 500 verktakar fyrir álverin innan lóðarmarka þeirra.
II.
Allar tekjur álveranna koma erlendis frá, þannig að nettó-gjaldeyristekjur sem álverin færa þjóðarbúinu eru einfaldlega öll útgjöld þeirra á Íslandi.
Í fyrra eyddu álverin þrjú 100 milljörðum króna á Íslandi, eða 275 milljónum á dag. Í grófum dráttum skiptist fjárhæðin svona:
A) Um 40 milljarðar voru orkukaup (áætlað út frá opinberu meðalorkuverði Landsvirkjunar til stóriðju).
B) Um 40 milljarðar voru kaup á öðrum vörum og þjónustu frá um 700 íslenskum fyrirtækjum (verktakar, verkfræðistofur o.s.frv.).
C) Launagreiðslur voru tæpir 15 milljarðar. D) Opinber gjöld voru tæpir 5 milljarðar.
III.
Það virðist vera nokkuð algengur misskilningur að hvert starf í álveri kosti þjóðfélagið ákveðið margar milljónir króna.
Að baki liggur sú hugsun, að til þess að álver geti hafið starfsemi þarf að reisa dýrar virkjanir. Misskilningurinn liggur í því að líta á byggingarkostnað virkjana sem tapað fé fórnarkostnað til að kaupa störf.
Svona eins og störfin væru keypt út í búð. Þetta væri alveg rétt ef virkjanir væru eins og t.d. vegir, sem skila engum beinum tekjum.
En sú er að sjálfsögðu ekki raunin.
Virkjanir eru gróðafyrirtæki. Rafmagnið sem þær framleiða er selt með hagnaði. Af þessari einföldu ástæðu er með öllu órökrétt að líta á kostnað við virkjanir sem útgjöld til að kaupa störf í álverum.
Störfin kosta þjóðfélagið ekki neitt. Þau eru bónus ofan á arðinn af því að virkja og selja rafmagn.
IV.
Líklega hefur hvergi verið skilgreint nákvæmlega hvað teljist stóriðja. Aftur á móti er í raforkulögum skilgreint hverjir teljist stórnotendur raforku; það eru þeir sem nota minnst 80 gígawattstundir á ári.
Til að setja þá tölu í samhengi má nefna að öll gróðurhús landsins nota samtals um 60 gígawattstundir á ári til lýsingar.
Álverið í Straumsvík, sem er minnsta álver landsins, notar yfir 3.000 gígawattstundir á ári.
Með kveðju,
Ólafur Teitur Guðnason
http://spyr.is/grein/ymsar-spurningar/3059
hvells
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Það sem fólk almennt séð virðist ekki átta sig á er að til að koma okkur út úr þeim vandræðum sem við erum í þurfum við að skapa verðmæti. Eftir því sem ég kemst næst skuldar ríkissjóður yfir 700 milljarða. Allar skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar sýndu svart á hvítu að skattahækkanir skila ekki nema hluta þess, ef einhverju, sem þær eiga að skila í ríkiskassann. Skattar hafa augljóslega áhrif á kauphegðun fólks auk þess sem þær rýra augljóslega verulega kjör fólks og getu þess til að standa straum af sínum skuldbindingum.
Hvernig komum við öllu í gang hérlendis? Það er tiltölulega auðvelt, besta leiðin er að lækka skatta verulega, þá verður hagkvæmt fyrir erlend fyrirtæki að fjárfesta hér og starfa enda skattar alls staðar á Vesturlöndum fáránlega háir. Lágir skattar myndu laða hingað fyrirtæki úr ýmsum geirum.
Ein leið til að búa til verðmæti er að fá hingað ekki stóriðju heldur stóriðjur. Þeir sem í reynd ættu að vera æstastir í að fá hingað stóriðju, sem auðvitað greiðir ríkinu skatta, eru opinberir starfsmenn. Hvers vegna?
Búið er að lofa opinberum starfsmönnum lífeyrisgreiðslum sem nánast útilokað er að standa við eins og málum er háttað núna, ríkið þarf að reiða fram um 400 milljarða á næstu ca. 20 árum í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Hvaðan á að fá þá peninga? Ef skattar eru hækkaðir fækkar það störfum og rýrir lífskjör fólks. Viljum við það? Vinstri menn og umhverfisverndarsinnar vilja það greinilega en ekki eru allir sammála þeim.
Það er því ljóst að íslenska ríkið skuldar í reynd yfir þúsund milljarða króna. Hvernig ætlar fólk ríkinu að standa undir þessum skuldbindingum nema auka tekjur þess?
Það geta ekki allir lifað á skáldskap eins og Andri Snær og þegið fyrir það himinháa þýska styrki. Hverju á hinn sauðsvarti almúgi að lifa á Hr. Andri Snær? Hvað er þetta "eitthvað annað"? Útilokar stóriðja "eitthvað annað"?
Við getum ekki látið eins og allt sé í himnalagi þegar ekkert gæti verið fjær lagi. Fjölmiðlar eru algerlega að klikka núna, líkt og á árunum fyrir hrun, með því að halda ekki raunverulegri stöðu ríkissjóðs að kjósendum.
Eigum við að tína hundasúrur og yrkja ljóð til að bæta lífskjör þjóðarinnar? Hversu raunhæf lausn er það þegar himinháar skuldir hins opinbera eru hafðar í huga?
Helgi (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 14:11
Sleggjan er fylgjandi Álversins í Helguvík ef orkusöluverðið verði á forsendum Landsvirkjunar en ekki stjórnmálamanna. Eins og staðan er í dag er Landsvirkjun ekki að farast úr áhuga og Bjarni hefur í fjölmiðlum daðrað við að beita sér í málinu og draga stjórnmálin inn í þetta.
Annars ef Landsvirkjun verði seld þá er útilokað að stjórnmálamenn verði með puttana í Landsvirkjun og þá verður væntanlega ekkert úr álverinu í Helguvík miðað við áhuga Landsvirkjunnar í dag.
Þessi samantekt hjá Ólafi Teit er góð eins langt og hún nær. Hafa ber í huga að hann er upplýsingafulltrúi hjá Alcan í Straumsvík. Áhugavert væri að skoða úttekt hjá hlutlausum aðilum um hvað þessi álver skila í raun.
kv
Sleggjan
Sleggjan og Hvellurinn, 19.6.2013 kl. 15:13
Það er fínt að taka þessa álversumræðu.
En mér leyðist að tala við fólk sem hafa ekki hugmynd um hvað það er að segja.
Tölum um staðreyndir.
En það er ekki mikið af þeim .... allavega ekki hér á bloggheimum.
hvells
Sleggjan og Hvellurinn, 19.6.2013 kl. 15:41
Mikið rétt.
Þegar ég talaði um að láta hlutlausa aðila gera úttekt á álverunum var ég ekki að meina að láta bloggheima sjá um úttektina.
Ekki hagsmunaaðila heldur, og enn síður stjórnmálamenn.
kv
Sleggjan
Sleggjan og Hvellurinn, 19.6.2013 kl. 15:44
Sæll.
Vandinn er að stjórnendur LV hafa ekki hegðað sér faglega undanfarin ár og vil ég sjá þá alla fara. Þetta vindmyllu ævintýri þeirra endurspeglar það prýðilega.
Ég fæ ekki betur séð en HA hafi verið að reyna að afla sér vinsælda hjá Vg og þeim sem illa eru að sér með því að heimta of hátt orkuverð. Þið virðist heldur ekki átta ykkur á þessu. Frakki nokkur sagði eitthvað á þessa leið á miðöldum: "Það eru til fífl sem vita mikið en skilja ekki neitt". Sprenglært fólk verður sér iðulega til háðungar þrátt fyrir sín fínu próf.
Framboð af ódýru jarðgasi í USA hefur aukist verulega og mun halda áfram að aukast (fracking). Það er hægt að nota í orkuframleiðslu og þeir gagnaversmenn hlógu bara að LV þegar þeir fóru enda var LV að heimta hærra rafmagnsverð en þeim stóð til boða í USA.
Stjórn LV virðist ekki átta sig á því að raforkumarkaðurinn er samkeppnismarkaður og því ekki hægt að setja upp einhliða eitthvað verð og ætlast til að menn borgi það vegna þess að allir hérlendis séu svo frábærir.
Ég óttast að við séum búin að missa af vagninum enda hvert ár sem líður dýrt og allar líkur á að raforkuverð lækki eftir því sem fram líða stundir.
Helgi (IP-tala skráð) 20.6.2013 kl. 08:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.