Framsókn og Dögun lesið

Frá árinu 1989 hefur almennt verðlag þrefaldast.

Frá árinu 1989 hafa meðallaun á Íslandi fjórfaldast.

Frá árinu 1989 hefur húsnæðisverð rúmlega fjórfaldast (þrátt fyrir mikla lækkun eftir hrun).

 

*Hagstofan hóf ekki mælingar á vísitölu launa fyrr en árið 1989.

*Sömu tölur frá 2005 og sundurliðun eftir starfsstéttum má sjá í viðbót neðst í þessari grein.

 

Þetta þýðir að laun hafa hækkað um 1% á ári umfram verðlag frá árinu 1989, þ.e. kaupmáttur launa hefur aukist um 1% á ári að jafnaði á öllu þessu tímabili. Þetta þýðir líka að laun hafa hækkað um 1% umfram hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána! Og hvort sem fólki hér inni líkar betur eða verr, þá þýðir þetta eftirfarandi:

 

Ef þú lesandi góður keyptir fasteign á Íslandi árið 1989 (eða 2005, sbr. viðauka) með verðtryggðu láni, ER EKKI NOKKUR FRÆÐILEGUR MÖGULEIKI Á AÐ ÞÚ HAFIR LENT Í GREIÐSLUERFIÐLEIKUM, nema að uppfylla eitt eða fleiri af eftirfarandi þremur skilyrðum:

 

1. Laun þín hækka hægar en meðallaun.

2. Þú hefur eytt um efni fram.

3. Fasteign þín lækkaði meira í verði en aðrar.

 

Ef þú uppfyllir eitt eða fleiri af þessum þremur atriðum er það ekki á ábyrgð ASÍ, það er ekki á ábyrgð Alþingis, það er ekki á ábyrgð lífeyrissjóðanna og það er ekki á ábyrgð bankanna eða Íbúðalánasjóðs. Öll þessi þrjú atriði hér að ofan eiga það sameiginlegt að vera á ábyrgð eins (og aðeins eins) aðila - þín sjálfs!

 

Nokkur orð um þessi þrjú atriði:

================================

Atriði 1: 

Frá árinu 1989 hefur verið 3,7% atvinnuleysi að meðaltali á Íslandi og fór það hæst í 7,6% árið 2010. Á sama tíma hefur atvinnuleysi verið 9,5% að meðaltali á evrusvæðinu og 5,0% í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi á Íslandi er því með því allra lægsta sem gerist í heiminum og menntun hefur verið að mestu leyti ókeypis á öllu þessu tímabili. Ef launin þín hafa hækkað hægar en hækkun meðallauna, er það í öllum tilfellum gerlegt og í öllum tilfellum á þinni ábyrgð að bæta úr því.

 

Atriði 2:

Að eyða um efni fram þýðir að útgjöldin þín eru hærri en tekjurnar og kallar í öllum tilfellum á auknar skuldir eða eignaskerðingu (sjá nánar: http://bit.ly/13tJ6uv). Vextir tilheyra hér útgjöldum og eiga þeir sérstaklega við um þá sem hafa tekið dýr yfirdráttarlán og önnur neyslulán (svo ekki sé minnst á hin sívinsælu smálán). Að kaupa eða flytja í dýrari fasteign en þú hefur efni á telst líka til þess að eyða um efni fram. Íslendingar hafa upp til hópa eytt um efni fram í gegnum árin og virðist engu máli skipta hvort hér sé góðæri eða kreppa (sjá: http://bit.ly/UXX5od). Þó að slík glórulaus hegðun hafi viðgengist á Íslandi í marga áratugi, er hún í öllum tilfellum óafsakanleg og í öllum tilfellum á ábyrgð hvers og eins!

 

Atriði 3:

Frá árinu 1989 hefur fasteignaverð hækkað jafn hratt og meðallaun í landinu ef frá er talin fasteignabólan sem hófst um mitt ár 2004 (sjá góða mynd af henni hér: http://bit.ly/VEVQwD) Fasteignabólan á Íslandi er ekkert öðruvísi en aðrar eignabólur sem hafa sprottið upp útum allan heim í mörg hundruð ár. Þeir sem kaupa og selja á réttum tíma hagnast mjög vel, en þeir sem kaupa á hápunkti bólunnar tapa miklu. Enginn getur þó með fullri vissu spáð fyrir um upphaf og endalok bólunnar og er oftast best að sleppa því að taka þátt í partýinu (og þ.a.l. þynkunni). Fasteignakaup eru í flestum tilfellum stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingur tekur á ævinni og það ber enginn ábyrgð á þessari fjárfestingu annar en einstaklingurinn sjálfur. Í eignabólum eru góð ráð vissulega dýr, en það ber heldur enginn ábyrgð á því hvaða ráðum þú kýst að fylgja nema þú sjálfur.

Atli ritaði.

 

Sleggjan endurbirti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Reynið að útskýra þetta fyrir Andreu í Dögun

hvells

Sleggjan og Hvellurinn, 27.4.2013 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband