Föstudagur, 12. apríl 2013
Álið
Álframleiðsla á Íslandi hófst árið 1969 þegar álverið í Straumsvík tók til starfa. Framleiðslan fyrsta árið var 33.000 tonn. Álverið í Straumsvík hefur síðan verið stækkað og framleiðslugeta þess aukin í 185 þúsund tonn. Á undanförnum árum hafa tvö önnur álver tekið til starfa, álver Norðuráls á Grundartanga árið 1998 og álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði árið 2007. Samanlögð framleiðslugeta þessara 3ja álvera er nú rúm 800 þúsund tonn. Heimsframleiðsla á áli var um 45 milljónir tonna árið 2012 og er því hlutur Íslands tæp 2,0%.
Ljóst er að uppbygging stóriðju á Íslandi hefur umbreytt hagkerfinu hér á landi. Með auknum álútflutningi hefur tekist að draga úr hlutfallslegu vægi annarra útflutningsgreina og skjóta fleiri stoðum undir rekstur þjóðarbúsins. Tilkoma álútflutnings hefur verið til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Frá árinu 1969, þegar álverið í Straumsvík tók til starfa, hefur hlutur áls í vöruútflutningi tæplega fimmfaldast en hlutur sjávarútvegs nær helmingast. Árið 2012 námu útflutningsverðmæti áls tæplega fjórðungi af heildarverðmæti alls útflutnings í hagkerfinu.
Árið 2012 námu tekjur af útflutningi áls 226 milljörðum króna. Þetta svarar til um það bil 23% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Til að framleiða þessi verðmæti þurfti að flytja inn súrál fyrir um 63 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuður áliðnaðarins á síðasta ári nam um 120 milljörðum króna. Kostnaður sem fellur til vegna reksturs álveranna hér á landi nemur um 40% af heildartekjum þeirra. Á síðasta ári nam þessi kostnaður 100 milljörðum króna.
Sala raforku til áliðnaðar hefur verið með arðsömustu starfsemi raforkufyrirtækja hér á landi um árabil sbr. nýlegar upplýsingar OR og Landsvirkjunar. Sem dæmi má nefna að arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar hefur að meðaltali verið um 15% á ári undanfarin 10 ár. Það er nokkru meiri arðsemi en að meðaltali hjá skráðum bandarískum orkufyrirtækjum á sama tímabili samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Um 80% af raforkusölu Landsvirkjunar er til stóriðju. Þá hefur Landsvirkjun gefið það út að félagið geti greitt upp allar skuldir sínar á 10-12 árum. Má hiklaust fullyrða að sala á orku til stórnotenda hafi verið forsenda þess að Íslendingar gátu ráðist í virkjun fallvatnanna og þar með nýtt sína helstu auðlind, þjóðinni til hagsbóta.
Því er stundum haldið fram að almenningur hafi niðurgreitt raforkuverð til stóriðju. Slíkt er fjarri sanni. Stærra og hagkvæmara raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur þvert á móti leitt til lækkunar á raforku til almennings. Raforkuverð til heimila hefur að jafnaði lækkað um 25% að raunvirði frá árinu 1997, sem að stórum hluta má skýra með auknu umframafli frá orkufrekum iðnaði sem sinnir afltoppum á almenna markaðnum. Samkvæmt tölum sem birtar voru á ársfundi Landsvirkjunar árið 2010, er raforkuverð til almennings á Íslandi, hið lægsta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Á fundinum kom einnig fram að ef borið er saman sambærilegt raforkuverð til stóriðju annars vegar og almennings hins vegar, greiða álverin að meðaltali um 70% þess verðs sem heimilin greiða. Nýtingartími álveranna er hins vegar mun meiri, eða 96% að jafnaði samanborið við um 56% hjá almennum notendum. Að teknu tilliti til þessa eru álverin að greiða 24% hærra verð fyrir uppsett afl en almennir notendur.
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum byggt upp traust eiginfjárhlutfall án framlaga frá eigendum sínum og verið fær um að standa undir afborgunum þeirra lána sem fyrirtækið hefur tekið. Þar hafa skattgreiðendur ekki þurft að hlaupa undir bagga.
Hjá fyrirtækjum í íslenskum áliðnaði starfa liðlega 2.100 manns. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að starfamargfaldari áliðnaðarins sé 1,4. Þannig má ætla að minnsta kosti um 5.000 manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti.
Í gegnum tíðina hafa álver á Íslandi almennt greitt hærri laun en almennir kjara-samningar kveða á um og álver hafa verið eftirsóttir vinnustaðir. Álverin hafa þannig haft tiltölulega greiðan aðgang að vinnuafli og þeim hefur jafnframt haldist vel á starfsfólki sínu. Á árinu 2009 voru heildarlaun starfsfólks í álverum að meðaltali 437.000 kr. á mánuði. Til samanburðar voru heildarlaun verkafólks 320.000 kr. að meðaltali, samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Á bak við heildarlaun verkafólks voru 44,5 vinnustundir á viku en 43,2 vinnustundir í álverum. Heildarlaunagreiðslur álfyrirtækjanna þriggja námu um 14,5 milljörðum króna árið 2012.
Erfitt er að fullyrða um nákvæm áhrif stóriðjuframkvæmda á búsetu og vinnumarkað viðkomandi svæða enda ástand á vinnumarkaði og sveigjanleiki vinnuaflsins afar mismunandi eftir svæðum. Hitt er vitað að uppbygging stóriðju skapar ýmis störf, bæði við virkjanaframkvæmdir, byggingu álvera og rekstur þeirra. Í sumum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ella ekki orðið til, í öðrum tilfellum almennari störf, t.d. við ýmis konar þjónustu.
Að auki ber að hafa í huga að þegar álver er byggt er ekki tjaldað til einnar nætur heldur miðast uppbyggingin við áratugalanga starfsemi. Tilkoma álvers er því góð kjölfesta fyrir atvinnulíf viðkomandi svæðis.
Unnin var vönduð úttekt á áhrifum af byggingu álvers Alcoa-Fjarðaáls á Norðausturlandi. Þar kemur meðal annars fram að íbúum á svæðinu fjölgaði um 22% á árunum 2002-2008. Að sama skapi hækkuðu laun marktækt meira á svæðinu en annars staðar á landsbyggðinni. Meðallaun á áhrifasvæði framkvæmdanna hafa verið þau hæstu á landsbyggðinni frá 2002.
Álver á Íslandi eru langstærstu orkukaupendur landsins og standa þar með að mestu undir þeim gríðarlegu fjárfestingum sem Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki hafa ráðist í. En þau kaupa einnig margvíslegar aðrar vörur og þjónustu. Þar má nefna þjónustu af verktökum, verkfræðistofum, bönkum, verkstæðum, sveitarfélögum og ýmsum opinberum aðilum. Þá er um að ræða mikil vörukaup og viðskipti vegna flutninga milli landa og innanlands.
Árið 2010 áttu íslensk álver viðskipti við um 700 innlend fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, fyrir samtals 24 milljarða króna. Þar eru orkukaup álveranna ekki innifalin.
Þegar ráðist er í uppbyggingu álvers kemur nýtt fé inn í viðkomandi sveitarfélag. Margir fá störf við bygginguna og þeir þurfa svo aftur á ýmis konar þjónustu að halda. Þessi margþættu áhrif sem leiða af uppbyggingunni hafa verið kölluð margfeldisáhrif og með því að líta einnig til þeirra má fá gleggri mynd af þeim áhrifum sem fjárfestingar á borð við byggingu álvers hafa í för með sér. Hluti af þessum margfeldisáhrifum kemur fram annars staðar en í heimabyggð. Til dæmis má gera ráð fyrir að umsvif á landsbyggðinni kalli á vinnu í stjórnsýslu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Mörg fyrirtæki, lítil og meðalstór, byggja afkomu sína að miklu leyti á viðskiptum við álverin og hafa jafnvel sérhæft sig á því sviði. Sem dæmi um þessi umsvif má nefna að árið 2009 unnu 320 manns á vegum verktaka á álverssvæðinu í Reyðarfirði, eingöngu fyrir Fjarðaál og um 120 manns utan álversins í Straumsvík eingöngu fyrir Alcan á Íslandi hf. Í flestum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ekki ella orðið til.
Ýmis starfsemi hefur vaxið og dafnað hér á landi vegna uppbyggingar áliðnaðar. Nærtækast er að nefna umfangsmikla starfsemi verkfræðistofa en hlutdeild innlendra verkfræðistofa í hönnun og verkefnastjórnun við byggingu álvera hefur aukist mjög á undanförnum árum. Stafar sú þróun helst af aukinni sérfræðiþekkingu og auknu bolmagni þessara fyrirtækja til að sinna stórframkvæmdum vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem orðið hefur í áliðnaði og tengdum orkuframkvæmdum.
Einnig hafa fjölmörg sérhæfð þjónustufyrirtæki sprottið upp í tengslum við áliðnað. Dæmi eru um að slík fyrirtæki séu farin að flytja út þjónustu sína og þekkingu. Tilkoma áliðnaðar hefur stuðlað að fjölbreyttari uppbyggingu í atvinnulífi Íslendinga á undanförnum áratugum.
samal.is
hvells
![]() |
Útflutningstekjur marklaust hugtak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Facebook
Athugasemdir
Frábært hversu mörg hálaunuð störf álverin splæsa.
Set spurningarmerki við útflutningstekjur eins og Andri leggur fram. Ég vill sjá Nettó töluna. Svo er tími til að vinna eitthvað úr álinu. Við förum að minna á Afríkuþjóð sem splæsir bara auðlindir en lætur önnur lönd um að skapa verðmætin.
Bílaiðnaðurinn í Þýskalandi er t.d. mjög sterkur. Ekki eru þetta láglaunastörf . Þýskir bílar eru dýrari en aðrir, enda keppa þeir í gæðum en ekki verði.
kv
sl
Sleggjan og Hvellurinn, 12.4.2013 kl. 20:24
Það veður allt í villum í þessum langa lofgerðarpistli. Bara ein: Álverið í Fjarðabyggð er ekki á Norðausturlandi heldur á Austurlandi, Miðausturlandi.
Fólki fjölgaði á Norðausturlandi, frá Eyjafirði til Langaness fjölgaði eftir Hrun en fækkaði á Austurlandi, þrátt fyrir álverið.
Ómar Ragnarsson, 12.4.2013 kl. 20:39
Fleira: Forstjóri Landsvirkjunar kvartaði opinberlega yfir ónógri arðsemi af Kárahnjúkavirkjun. Jafnvel þótt notuð sé talan 5000 um störfin, sem álverin færa okkur, eru þau aðeins 3% af vinnuafli landsmanna. Aðeins rúmlega 1% af vinnuafli landsmanna vinnur í álverunum sjálfum og ef "afleiddum störfum" er bætt við í hverri af hinum atvinnugreinunum um sig kemur út talan 300% !
Og jafnvel þótt öll orka landsins
Ómar Ragnarsson, 12.4.2013 kl. 20:47
Hefur herra Ómar kannað hvað margir bjuggu á Reyðarfirði fyrir álver?Hvað var byggt að húsum þar?Hann ætti að hætta þessum gengdalausa áróðri gegn þessari atvinnu starfsemi hér á Austurlandi.
Ég vinn hjá fyrirtæki í Neskaupstað (þar búa 1700 og fjöldi stundar vinnu hjá Alcoa)Þetta verkstæði hefur aukið tækjakost sinn verulega og eru tækin meða lannars notuð til að þjónusta álver Alcoa.Einnig má geta þess að störf að á austurlandi eru ca 1000 störf sem komin eru til vegan Alcoa,hvar væri þetta fólk annars í vinnu hr Ómar.Fyrir utan öll þetta eru hér í Fjarðabyggð þrjú öflug fiskvinnslufyrirtæki,sem andstæðingar landsbyggðar hatast útí.En sem betur fer búum við við atvinnuöryggi hér á á Austurlandi.En draumur Hr Ómars er að hér væri atvinnuleysi og eymd.Hvað hafa Austfirðingar gert þér hr ómar?
Þorgrímur S Þ (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 21:30
Álverin eru klárlega að skila okkur hellings tekjum í afleiddum vel borguðum störfum.
En raunverulegar útflutningstekjur sem okkur eru reglulega gefnar upp eru ekki nema hálfur sannleikur.
Á móti vantar t.d. hvað er flutt inn af súráli á móti.
Eða eins og Sleggjan segir, það væri gaman að fá að vita nettó tekjurnar af þessum útflutningi.
Þær hafa örugglega lítið að segja á móti sjávarútvegnum.
Sigurður (IP-tala skráð) 12.4.2013 kl. 22:07
Það er um helmingur.
http://www.visir.is/innflutt-hraefni-til-alvera-var-helmingur-af-utflutningstekjum/article/2010418328764
hvells
Sleggjan og Hvellurinn, 12.4.2013 kl. 22:33
Ómar, ert þú með hugmyndir að atvinnustarfsemi sem gæti skapað þúsundir starfa, t.d á landsbyggðinni?
Og veistu ekki að það harðduglega fólk (ca.4.000 - 4.500 manns) sem kom til að byggja álverið og virkjunina, voru skráðiir íbúar á Austurlandi á meðan á byggingartímanum stóð og flutti svo burtu að því loknu og þess vegna fækkaði fólki á Austurlandi? - (eða kýstu að túlka íbúatölur Hagstofunnar líkt og Skrattinn túlkar Biblíuna?)
Ómar og Andri Snær, hvað þykist þið hafa hundsvit á náttúruvernd, menn sem eyðið megnið af tímanum ykkar í borgum (bæði hér á landi sem og erlendis) enda eru borgir ykkar náttúrulega umhverfi.
Andri Snær er umhverfishræsnari, hann hefur ekki hundvit á nàttúru eða umhverfi, enda er hann aldrei úti î náttúrunni hér á landi, heldur er hann megnið af sínum tíma í borgarumhverfi, sem er hans náttúrulega umhverfi.
Austfirðingurinn (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 00:14
Ómar er hugsjónarmaður, skulum fara varlega í persónuníð.
Hans sjónarhorn er valid, ásamt þínum.
kv
sl
Sleggjan og Hvellurinn, 13.4.2013 kl. 04:16
Það eru margir sem eru umhverfisverndarsinnar vegna þess að þeir hafa óbeit af kapitalistanum. Andrí Snær getur flokkast undir þann flokk. Þetta er kallað melónufólk þ.e græn að utan en rauð að innan.
Sumir eru umhverfisverndarsinnar vegna þess að þeir einfaldlega elska Íslenska nátturu og ég ber mikla virðingu fyrir því fólki. Ómar Rangarsson er þarna á meðal.
Það er mikill munur á þessu tvennu.
hvells
Sleggjan og Hvellurinn, 13.4.2013 kl. 10:02
Andri Snær er tækifærisumhverfissinni, svona "bara ef það hentar mér" maður.
Sennilega er Andri Snær sá aðili sem grætt hefur einna mest á Kárahnjúkadæminu.
Hann gaf út bók, einskonar einka-manífesto "Draumalandið'" gegn atvinnuuppbyggingu fyrir austan.
Bók þessi, sem er meira í ætt við skáldskap en raunverulegt hagsmunamat", vakti athygli.
Einnig lét hann gera mynd upp úr bókinni sem átti að vera einskonar "heimildarmynd" um þessar framkvæmdir fyrir austan, en tímasetning útgáfu mydarinnar var afar óheppilega fyrir hann, nefnilega í miðju hruninu, svo myndin fékk blendnar viðtökur.
Sumir gagngrýnendur vildu meina að hér væri á ferðinni "umhverfisklámmynd"þar sem mörg atriði í henni voru sviðsett, t.d. eltingaleikur á þyrlu á eftir hreindýramóður með tvo hreindýrakálfa sem hlupu á undan þyrlunni þar til að þeir sprungu. Það atriði þegar hreindýrin sprungu, var að sjálfsögðu klippt út.
Hann stórgræddi á Draumalandinu, og það skaut honum verulega á stjörnuhimininn.
Ég gef ekki mikið fyrir þá ímynd að Andri Snær sé mikill umhverfissinni. Hann býr í borg, ferðast mikð til stórborga erlendis, og því virðist sem borgar og borgarmenning sé hans náttúrulega umhverfi, en ekki óspillt náttúra Íslands. Það er hans ónáttúra.
Á heimasíðu hans má nefnilega sjá og greina að hann er mikið fyrir borgarmenningu og borgarlíf, sem er nokkuð í andstöðu við þá ímynd sem hann vill gefa af sjálfum sér um umhverfissinna.
Hann segir sjálfur á heimasíðu sinni, að hann hafi tekið þátt í skipulagi borgarsamfélags sem ráðgjafi við hönnun skóla og annarra stórra opinberra mannvirkja á Höfuðborgarsvæðinu.
Auk þess telur hann sér það til tekna að hafa verið með í ráðum við skipulag stórra höfuðstöðva tveggja banka hér á landi fyrir hrun, sem í raun verð aldrei neitt úr.
þetta þarf í raun ekki að vera neinn löstur á honum, en sýnir bara hversu lítill umhverfissinni hann er í raun og veru.
Betur færi að hann legði landsbyggðinni lið og kæmi með hugmyndir að atvinnuuppbyggingu þar í staðinn fyrir að rífa niður viðleitni til atvinnuuppbyggingar þar þegar um orkuvinnslu og iðjuver er að ræða.
Austfirðingurinn (IP-tala skráð) 13.4.2013 kl. 17:04
Draumalandið eftir Andra er frábær bók og mæli með því fyrir alla að lesahana.
ÞEir sem gagnrýna hann sem mest ættu að vera búnir með hana , eða í það minnsta glugga aðeins í hana.
kv
sl
Sleggjan og Hvellurinn, 14.4.2013 kl. 16:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.