Hókus Pókus oforðin

Tek undir orð Þórðar

Nú eru fimm mánuðir til næstu alþingiskosninga. Framboðin eru því farin að leggja drög að atkvæðaveiðum með loforðaflaumi. Sum loforðin eru skynsamleg. Sum kjánaleg. En allt of mörg eru beinleiðis brjáluð.

Skattalækkanir eru vel þekkt og aðlaðandi beita á kosningavertíð. Það vilja enda allflestir borga minna hlutfall af launum sínum í samneysluna til að geta eytt meiru í sjálfan sig og sína. Sjálfstæðisflokkurinn, einstakir frambjóðendur hans og allskyns fylgihnettir vilja hins vegar "vinda ofan af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar". Það sem vantar upp á þessar tillögur er hvernig það eigi þá að brúa gatið sem skapast í rekstri ríkissjóðs með raunhæfum hætti ef þessir viðbótar-tekjustofnar skila allt í einu engu. Neikvæður jöfnuður ríkissjóðs frá árinu 2008 og út næsta ár er nefnilega áætlaður samtals 600 milljarðar. Og gatið er enn að stækka.
Á sama tíma kynnir ríkisstjórnin fjárfestingaáætlun fyrir árin 2013-2015 upp á nokkra tugi milljarða sem hún hefur ekkert umboð til að hrinda í framkvæmd. Næsta ríkisstjórn verður aldrei bundin af henni. Áætlunina á að fjármagna með veiðigjaldi, sem stærsti stjórnmálaflokkurinn vill afnema komist hann í ríkisstjórn, og sölu á bönkum sem enginn markaður er fyrir eða arðgreiðslum sem ekkert hefur verið ákveðið um hvort eða hvenær verði greiddar út.

Nýjasta kosningavetursæðið snýst um mismunandi útfærslur á því að þjóðnýta eignir þrotabúa gömlu bankanna til að endurfjármagna Ísland. Rökin eru þau að við höfum komist upp með að festa fullt af fé útlendinga hérlendis með neyðarlögunum og gjaldeyrishöftunum og því sé okkur ekkert að vanbúnaði að hirða restina. Það verður þó að gera sér grein fyrir því að þessar hugmyndir munu hafa víðtækar alþjóðlegar afleiðingar. Og það er nokkuð ljóst að sú erlenda fjárfesting sem þarf til að byggja hér upp þekkingarhagkerfið, sem öllum nýmóðins stjórnmálamönnum finnst svo gaman að tala um, kemur ekki hingað ef meiri líkur en minni eru á að fjárfestarnir fái ekki peningana sína til baka.

En stærsti uppboðsmarkaðurinn snýst um almennar skuldaniðurfellingar. Fyrsta boð kom frá Framsóknarflokknum, sem ætlar að vaða í 20 prósenta niðurfellinguna í nýrri og dýrari útfærslu. Næsta kom frá Samstöðu sem ætlaði fyrst að búa til einhvers konar peningavél til að láta skuldir hverfa, en hefur síðan tekið upp nýkrónustefnu sem í felst stórtæk eignaupptaka. Nýjasta, og hæsta, tilboð kom síðan frá Hægri grænum. Það felur í sér að húsnæðislán verði lækkuð um 44 prósent hið minnsta. Þá byggir Dögun tilveru sína á regnbogaloforðum um skuldaniðurfærslur og einstakir þingmenn gömlu flokkanna hafa einnig talað á svipuðuð nótum. Það minnist hins vegar enginn á hundruð milljarða óumflýjanlegan kostnað ríkis og lífeyrissjóða af þessu brjálæði.
Töfralausnapólitík hefur aldrei tröllriðið landanum af jafn miklu offorsi og hún gerir um þessar mundir. Það virðist lenska að lofa undralausn á vandamálum sem er ekki hægt að leysa nema með skynsamlegri langtímanálgun. Þótt stjórnmálamenn veifi sprota og kalli "hókus pókus!" þá hverfa vandamálin nefnilega ekki. Þvert á móti gætu töfrabrögðin skilið okkur eftir í mun verri málum fái stjórnmálamennirnir sem lofa þeim umboð.

kv

Sleggjan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband