Föstudagur, 7. september 2012
Álverin og hagsældin
Álframleiðsla á Íslandi hófst árið 1969 þegar álverið í Straumsvík tók til starfa. Framleiðslan fyrsta árið var 33.000 tonn. Álverið í Straumsvík hefur síðan verið stækkað og framleiðslugeta þess aukin í 185 þúsund tonn. Á undanförnum árum hafa tvö önnur álver tekið til starfa, álver Norðuráls á Grundartanga árið 1998 og álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði árið 2007. Samanlögð framleiðslugeta þessara 3ja álvera er nú rúm 800 þúsund tonn. Heimsframleiðsla á áli var um 40 milljónir tonna árið 2010 og er því hlutur Íslands um 2,0%.
Ljóst er að uppbygging stóriðju á Íslandi hefur umbreytt hagkerfinu hér á landi. Með auknum álútflutningi hefur tekist að draga úr hlutfallslegu vægi annarra útflutningsgreina og skjóta fleiri stoðum undir rekstur þjóðarbúsins. Tilkoma álútflutnings hefur verið til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Frá árinu 1969, þegar álverið í Straumsvík tók til starfa, hefur hlutur áls í vöruútflutningi tæplega fimmfaldast en hlutur sjávarútvegs nær helmingast. Árið 2010 námu útflutningsverðmæti áls um fjórðungi af heildarverðmæti alls útflutnings í hagkerfinu.
Árið 2010 námu tekjur af útflutningi áls 225 milljörðum króna. Þetta svarar til um það bil 25% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Til að framleiða þessi verðmæti þurfti að flytja inn súrál fyrir um 63 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuður áliðnaðarins á síðasta ári nam um 120 milljörðum króna. Kostnaður sem fellur til vegna reksturs álveranna hér á landi nemur um 40% af heildartekjum þeirra. Á síðasta ári nam þessi kostnaður því um 80 milljörðum króna.
Sala raforku til áliðnaðar hefur verið með arðsömustu starfsemi raforkufyrirtækja hér á landi um árabil sbr. nýlegar upplýsingar OR og Landsvirkjunar. Sem dæmi má nefna að arðsemi eiginfjár Landsvirkjunar hefur að meðaltali verið um 15% á ári undanfarin 10 ár. Það er nokkru meiri arðsemi en að meðaltali hjá skráðum bandarískum orkufyrirtækjum á sama tímabili samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Um 80% af raforkusölu Landsvirkjunar er til stóriðju. Þá hefur Landsvirkjun gefið það út að félagið geti greitt upp allar skuldir sínar á 10-12 árum. Má hiklaust fullyrða að sala á orku til stórnotenda hafi verið forsenda þess að Íslendingar gátu ráðist í virkjun fallvatnanna og þar með nýtt sína helstu auðlind, þjóðinni til hagsbóta.
Því er stundum haldið fram að almenningur hafi niðurgreitt raforkuverð til stóriðju. Slíkt er fjarri sanni. Stærra og hagkvæmara raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur þvert á móti leitt til lækkunar á raforku til almennings. Raforkuverð til heimila hefur að jafnaði lækkað um 25% að raunvirði frá árinu 1997, sem að stórum hluta má skýra með auknu umframafli frá orkufrekum iðnaði sem sinnir afltoppum á almenna markaðnum. Samkvæmt tölum sem birtar voru á ársfundi Landsvirkjunar árið 2010, er raforkuverð til almennings á Íslandi, hið lægsta í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Á fundinum kom einnig fram að ef borið er saman sambærilegt raforkuverð til stóriðju annars vegar og almennings hins vegar, greiða álverin að meðaltali um 70% þess verðs sem heimilin greiða. Nýtingartími álveranna er hins vegar mun meiri, eða 96% að jafnaði samanborið við um 56% hjá almennum notendum. Að teknu tilliti til þessa eru álverin að greiða 24% hærra verð fyrir uppsett afl en almennir notendur.
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum byggt upp traust eiginfjárhlutfall án framlaga frá eigendum sínum og verið fær um að standa undir afborgunum þeirra lána sem fyrirtækið hefur tekið. Þar hafa skattgreiðendur ekki þurft að hlaupa undir bagga.
Hjá fyrirtækjum í íslenskum áliðnaði starfa liðlega 2.000 manns. Samkvæmt mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má gera ráð fyrir að starfamargfaldari áliðnaðarins sé 1,4. Þannig má ætla að minnsta kosti um 4.800 manns hafi framfæri sitt af álframleiðslu með beinum hætti.
Í gegnum tíðina hafa álver á Íslandi almennt greitt hærri laun en almennir kjara-samningar kveða á um og álver hafa verið eftirsóttir vinnustaðir. Álverin hafa þannig haft tiltölulega greiðan aðgang að vinnuafli og þeim hefur jafnframt haldist vel á starfsfólki sínu. Á árinu 2009 voru heildarlaun starfsfólks í álverum að meðaltali 437.000 kr. á mánuði. Til samanburðar voru heildarlaun verkafólks 320.000 kr. að meðaltali, samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Á bak við heildarlaun verkafólks voru 44,5 vinnustundir á viku en 43,2 vinnustundir í álverum. Heildarlaunagreiðslur álfyrirtækjanna þriggja námu um 10 milljörðum króna árið 2009.
Erfitt er að fullyrða um nákvæm áhrif stóriðjuframkvæmda á búsetu og vinnumarkað viðkomandi svæða enda ástand á vinnumarkaði og sveigjanleiki vinnuaflsins afar mismunandi eftir svæðum. Hitt er vitað að uppbygging stóriðju skapar ýmis störf, bæði við virkjanaframkvæmdir, byggingu álvera og rekstur þeirra. Í sumum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ella ekki orðið til, í öðrum tilfellum almennari störf, t.d. við ýmis konar þjónustu.
Að auki ber að hafa í huga að þegar álver er byggt er ekki tjaldað til einnar nætur heldur miðast uppbyggingin við áratugalanga starfsemi. Tilkoma álvers er því góð kjölfesta fyrir atvinnulíf viðkomandi svæðis.
Unnin var vönduð úttekt á áhrifum af byggingu álvers Alcoa-Fjarðaáls á Norðausturlandi. Þar kemur meðal annars fram að íbúum á svæðinu fjölgaði um 22% á árunum 2002-2008. Að sama skapi hækkuðu laun marktækt meira á svæðinu en annars staðar á landsbyggðinni. Meðallaun á áhrifasvæði framkvæmdanna hafa verið þau hæstu á landsbyggðinni frá 2002.
Álver á Íslandi eru langstærstu orkukaupendur landsins og standa þar með að mestu undir þeim gríðarlegu fjárfestingum sem Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki hafa ráðist í. En þau kaupa einnig margvíslegar aðrar vörur og þjónustu. Þar má nefna þjónustu af verktökum, verkfræðistofum, bönkum, verkstæðum, sveitarfélögum og ýmsum opinberum aðilum. Þá er um að ræða mikil vörukaup og viðskipti vegna flutninga milli landa og innanlands.
Árið 2010 áttu íslensk álver viðskipti við um 700 innlend fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, fyrir samtals 24 milljarða króna. Þar eru orkukaup álveranna ekki innifalin.
Þegar ráðist er í uppbyggingu álvers kemur nýtt fé inn í viðkomandi sveitarfélag. Margir fá störf við bygginguna og þeir þurfa svo aftur á ýmis konar þjónustu að halda. Þessi margþættu áhrif sem leiða af uppbyggingunni hafa verið kölluð margfeldisáhrif og með því að líta einnig til þeirra má fá gleggri mynd af þeim áhrifum sem fjárfestingar á borð við byggingu álvers hafa í för með sér. Hluti af þessum margfeldisáhrifum kemur fram annars staðar en í heimabyggð. Til dæmis má gera ráð fyrir að umsvif á landsbyggðinni kalli á vinnu í stjórnsýslu og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Mörg fyrirtæki, lítil og meðalstór, byggja afkomu sína að miklu leyti á viðskiptum við álverin og hafa jafnvel sérhæft sig á því sviði. Sem dæmi um þessi umsvif má nefna að árið 2009 unnu 320 manns á vegum verktaka á álverssvæðinu í Reyðarfirði, eingöngu fyrir Fjarðaál og um 120 manns utan álversins í Straumsvík eingöngu fyrir Alcan á Íslandi hf. Í flestum tilfellum er um að ræða sérhæfð störf, sem hefðu ekki ella orðið til.
Ýmis starfsemi hefur vaxið og dafnað hér á landi vegna uppbyggingar áliðnaðar. Nærtækast er að nefna umfangsmikla starfsemi verkfræðistofa en hlutdeild innlendra verkfræðistofa í hönnun og verkefnastjórnun við byggingu álvera hefur aukist mjög á undanförnum árum. Stafar sú þróun helst af aukinni sérfræðiþekkingu og auknu bolmagni þessara fyrirtækja til að sinna stórframkvæmdum vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem orðið hefur í áliðnaði og tengdum orkuframkvæmdum.
Einnig hafa fjölmörg sérhæfð þjónustufyrirtæki sprottið upp í tengslum við áliðnað. Dæmi eru um að slík fyrirtæki séu farin að flytja út þjónustu sína og þekkingu. Tilkoma áliðnaðar hefur stuðlað að fjölbreyttari uppbyggingu í atvinnulífi Íslendinga á undanförnum áratugum.
http://www.samal.is/
hvells
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð og fróðleg samantekt hjá ykkur um áliðnaðinn og áhrif hans hérlendis.
Tek það einnig fram, af því að það gerist nú ekki á hverjum degi, að í þessu máli er ég er hjartanlega sammála ykkur.
Þurfum samt nú að vera meir vakandi fyrir annarskonar orkufrekum iðnaði og góðri erlendri fjárfestingu til þess að dreifa rekstrar- og fjárfestingar áhættunni betur.
Gunnlaugur I., 7.9.2012 kl. 08:37
Sammála því.
hvells
Sleggjan og Hvellurinn, 7.9.2012 kl. 10:09
Kærar þakkir fyrir birtingu þessarar greinar.
Snorri Hansson, 7.9.2012 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.